Er að koma öllu í ferðahaminn

Aðeins búi að breyta lúkkinu, bæta inn tenglum og vonandi bráðum að koma inn flickr síðu eða einhverri góðri myndasíðu, ekki alveg nógu hamingjusöm með þessa hérna.

Allt að gerast

Já gleðilegt árið þið hræður sem enn hafið einhverja von um að ég muni einhvern tíman hundskast til að láta í mér heyra hér í bloggheimum. Ég er hér enn og gera lítið annað en að vinna og vinna. Jólin voru dásamleg eins og venjulega. Hlýtt og notalegt hér í hlíðinni bæði bókstaflega sem og samvera ástvina sem hlýjar manni alltaf. Ég verð að segja að eins jólaleg jól man ég vart eftir. Jólasnjór á svignandi greinum og þvílík blíða og dásemd á jóladag...mmm svona eiga jólin að vera.

Litla músin þeirra Ástu og Halla hefur hlotið nafnið Sunna Dís og dafnar svo vel...er komin með nokkrar undirhökur og spékoppa á olnbogana. Við Pálmi förum reglulega til hennar að knúsa hana og Pálmi greyið rakar sig í gríð og erg þar sem Sunna greyið verður eldraun undan 2daga broddunum.

Ég er áfram á ljósmyndanámskeiðinu og gengur bara ágætlega. Við Pálmi fengum rosa pro prentara og kemst lítið annað að en tilraunir með prentun og photoshop. Þetta er að verða nokkuð massívt áhugamál þessi ljósmyndun. Komin með rosa myndavélar, hrikalegan prentara, þrífót, auka linsu..tölvan er þó veiki hlekkurinn (já og kannski ljósmyndarinn) en úr því verður bætt hið fyrsta.

Annars miða dagarnir að því að undirbúa FERÐINA miklu um Asíu. Við förum út 5.feb og þá til London og svo til Dehli þá næst til Katmandu, Hanoi, Singapore, Mataram (lombok/ Indonesiu), Hong Kong, L.A., London....Keflavík Iceland! Ég reyni að koma þessari síðu í skrif form og verð dugleg, eftir því sem nettengingar leyfa, að skrifa og láta vita af ferðum okkar Pálma.


barnaljósmyndun

veturinn kom á laugardagskvöldið. Þá var smá hittingur hérna á stígnum. Sá hittingur var með smá jólaundirtón ... en eins og allir vita sem þekkja mig er ég löngu komin í jólaskap. Ég er ein af þessum fáu sem fagna ákaft snemmbúnum skreytingum IKEA og finnst bara gott að hitta jólasveininn í október! Allt til að létta manni þessa dimmu, þungu mánuði nóvember og desember.

Annars fara dagarnir bara í það að vinna og ditta að íbúðinni sem er orðin svo hrikalega flott! Við Pálmi fórum nú reyndar síðustu helgi til Köben. Yndisleg 4 daga ferð til að sjá litlu prinsessuna þeirra Ástu og Halla. Óskaplega mikið krútt eins og lög gera ráð fyrir. Það voru náttúrulega teknar ógurlega margar myndir af henni og engu öðru í þessari ferð. Maður hlakkar strax til að hitta krútt krílið aftur í des þegar hún fær að líta frónið fyrst augum.

Maður fer nú að hitta fleiri kríli á næstunni þar sem vinkvennahópurinn er kominn af stað í barna stússið.  Ein prinsessa mætt á svæðið og nú tvö önnur á leiðinni. Þannig að maður verður virkilega að fara mastera barnaljósmyndunina.

 

 


Ég er enn hérna

Ég er nú ekki sú öfluasta í netheimum í blogginu. Það er hins vegar nógu að segja frá. Gluggarnir á Stígnum eru óðum að verða fallega hvítir og bitarnir í loftinu einnig. Ég reif niður eldhúsinnréttinguna og málaði hana sömuleiðis í sama litnum og því er stofan og eldhúsið eins og skriðdreki hafi kíkt í heimsókn. Mikið verður þetta samt fallegt þegar allt verður komið á sinn stað....hmmm. Læt mig dreyma um þann dag.

Ferðirnar í IKEA eru orðnar ansi margar einnig ferðirnar í húsasmiðjuna. Ég uppgötvaði samt eitt um daginn. Á laugaveginum leynist gersemi að nafni Brynja. Sú búð selur ótrúlega margt til hús-að- dittunar og oft eru vörurnar þar ódýrari en í þessum stóru húsasmiðju/byko skemmum (þar sem er gjörsamlega ómögulegt að fá almennilega þjónustu).

 Stóru skemmtilegu fréttirnar snúa þó að henni Ástu systur Pálma og manninum hennar honum Halla. Þau gerðust svo framtaksöm að fjölga mannkyninu 29.9 sl. Lítil prinsessu písl kom þá í heiminn. Við hjónaleysin förum út eftir um 14 daga til sjá litlu fjölskylduna. Ég hlakka alveg rosalega mikið til að fara til Köben og læt líklega ekki mitt eftir liggja í jólainnkaupum í lillums bolighus og H&M.

Ég er byrjuð á ljósmyndanámskeiði sem er nú eiginlega meira tölvunámskeið. Þar læri ég að hundskast til að koma skikk á stafrænumyndirnar mínar...sem eru ansi margar! Nú bíð ég bara eftir að stytti upp til að ég geti farið af stað að mynda heimaverkefni þessarar viku. Gæti þurft að bíða ansi lengi. Læt nokkrar myndir fylgja frá haustinu.

 

 


Haust

Æi ég hef aldrei verið mikil haust manneskja. Finnst ekkert sérstakt við það að dagarnir styttist og rigningin skoli öllu niður. Ég er meira þessi týpa sem verð alltaf nett blúsuð við roða laufblaðanna. Mér líkar ekkert við hrissingsleg kvöld, myrk og dularfull. Ágætt að kveikja á kertum svo sem og nú þegar maður er komin með arinn eru þessi kvöld aðeins að öðlast meiri sjarma en áður. Nú er líka kominn heitur pottur í bústaðinn þannig að hann verður ágætis hæli fyrir skammdegis-súrlynda. Nú er bara að finna sér ýmislegt til að hlakka til, koma íbúðinni í stand, utanlandsferð í október þetta spennandi námskeið sem ég er að fara á og svo náttúrulega jólin...en meira um þau síðar!

allt að gerast

Einhverra hluta vegna er ég algjör snillingur í því að láta alla hluti gerast á nákvæmlega sama tímapunktinum. Í vor stóð ég í því að ráða mig í vinnu, skrifa undir kaupsamning á íbúðinni, skila lokaritgerð, fara til Tælands. Svo í sumar hef ég bara unnið og ferðast ...svona þegar helgarnar leyfðu. Nú er allt að byrja aftur. Loksins, loksins fáum við íbúðina okkar afhenda á laugardaginn. Ég er alveg ferlega spennt og get varla beðið eftir að byrja að mála, flísaleggja ganginn og svona. ég er líka að byrja í nýrri og mjög spennandi vinnu á mánudaginn og svo fer ég á námskeið hjá myndlistaskólanum í Reykjavík þar sem ég gat náttúrulega ekki hugsað mér að sitja ekkert á skólabekk nú í haust. Það er sem sagt nóg að gera. Ekki kvarta ég mér finnst ágætt að hafa nóg að gera sérstaklega ef það er allt svona skemmtilegt. Hundleiðinlegt að hafa mikið af leiðinlegum verkefnum hangandi yfir sér.

 


Þreyttur dagur!

Voðalega eru sumir dagar þreyttir... skrýtið það voru allir þreyttir í vinnunni í dag. Kaffið stoppaði mjög stutt á könnunni.

Annars hafa síðustu dagar verið allt annað en þreyttir. Reyndar mikið sofið en það er nú bara ég á ferðalagi. Við Pálmi fórum sem sagt í ferð um vesturlandið Snæfellsnesið, Fellströndina og Dalina. Ég er þeim hæfileikum gædd að geta sofnað á 23 sek sléttum þegar ég sest upp í bíl. Sökum þessara hæfileika minna er ég alveg sérlega leiðinlegur ferðafélagi....eða sérlega skemmtilegur eftir því hvernig samferða menn mínir kunna við vakandi og blaðrandi fólk.

Við drifum okkur á miðvikudaginn í bústaðinn góða Litlu- Hlíð. Þaðan, já þaðan drifum við okkur gegnum kaldadalinn gegnum Húsafell, á Fellsströndina! Já þetta er löng leið þannig að ég náði nokkrum góðum dúrum á leiðinni. Daginn eftir var sudda veður þarna þannig að við drifum okkur bara í sund að Laugum og svo beina leið á Grundarfjörð. Þar sváfum við 2 nætur. Við reyndum að veiða með mjög lélegum árangri. Ég gekk á fjall (eiginlega bara hól, sem ég veit ekki hvað nefnist) við borðuðum ósköp mikið af nammi og höfðum það almennt mjög gott. En þvílíkur kuldi á aðfaranótt sunnudagsins var þvílíkur. Sem betur fer á ég kuldaskræfan feiknar góðan jöklapoka sem aftur og aftur bjargar heilsu minni á þessi flandri mínu um landið.


Hvað er þetta í loftinu?

Já þegar ég vaknaði í morgun áttaði ég mig engan veginn á því hvað kæmi svona blautt og kalt úr himninum. Stuttu síðar rifjaðist upp fyirr mér að ég hefði einhvern tímann séð svona fyrirbæri áður og áttaði ég mig á því að þetta heitir víst rigning. Ég hreinlega ekki séð rigningu núna í nokkrar vikur. Ég keyrir Reykjanesbrautina núna á morgnanna í sólinni og hef það sem viðmið að rúðuþurrkurnar á bílnum mínum eru frekar lélegar en það hefur ekki komið að sök hingað til því það hefur ekkert rignt, kannski að maður skelli nýjum þurrkum á í dag?

Þessi rúntur á milli Reykjanesbæjarins og Reykjavíkurinnar er nú ekki það skemmtilegasta sem ég upplifi en ég reyni bara að hugsa hverslags heimsborgari maður er að keyra langar leiðir í vinnu rétt eins og í stóru borgunum í heiminum...best væri nú ef ég tæki bara lestina. Mér finnst í raun ekkert að því að þetta taki þennan tíma heldur finnst mér óþægilegt að keyra sjálf, myndi frekar vilja hristast í lest og lesa bók á meðan. Svona getur maður farið í Pollýönu-leik til að komast yfir leiðindi hvers dagsins.

Ég hef nú líka verið duglega að nýta helgarnar og höfum við Pálmi farið í útilegu hverja einustu helgi frá því að við komum heim. Þingvelli, Þórsmörk, Húsafell, Snæfellsnesið og svo náttúrulega í bústaðinn í Vörðufellinu. Svo er bara að leggja höfuðið í bleyti og sjá hvert skal halda næst.

 


Mögnuð ganga

Ég var að koma heim eftir þessa mögnuðu göngu. Fjöldi fólks gekk í dásamlegu veðri  hér í Reykjavíkinni. Þegar blöðrunum, rauðum fyrir þá sem slösuðust alvarlega í bílslysum árið 2006 og svörtum fyrir þá sem létu lífið, blöskraði mér fjöldi þeirra rauðu. Þær svörtu tákna að sjálfsögðu gríðarlegan missi og sorg en þær rauðu einnig en þær gleymast svo oft í umfjöllun um þessi hrikalegu slys.

Munum bara að minni hraði - Minni skaði! Þegar einhver ekur á rúmlega löglegum hraða er sá hinn sami ekki einungis að taka ákvörðun um að koma sjálfum sér í hættu heldur hinum á veginum einnig. Það hefur enginn maður þann rétt að taka slíka ákvörðun!

Frábært framtak!


mbl.is Mikil þátttaka í göngu gegn umferðarslysum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskrifuð

Við erum þá komin heim á skerið góða. Þegar við lentum á KEF var venju samkvæmt 10 stiga hiti og smá súld. Mér finnst þessi veðurlýsing alltaf taka á móti mér þegar ég lendi sama hvaða tíma árs ég er að þvælast til útlanda. Síðan hefur nú veðrið skánað heilan helling og er ljómandi þessa stundina. Það er sem sagt vika síðan að ég útskrifaðist og byrjaði svo að vinna á mánudaginn síðasta með nýjan titil upp á arminn. Nema endingin var horfin af nafn spjaldinu og í staðinn komin endingin -fræðingur með öllum sínum þunga og væntinga um svör við öllu. Mér hefur gengið ljómandi vel að svara þeim sem ég hef fengið hingað til og greinilegt að eitthvað hefur tollað í toppstykkinu eftir þessi 4 ár í háskólanum.

Við Pálmi fórum í fyrstu útileguna á föstudaginn og gistum á Þingvöllum. Sem var bara dásamlegt að sofa í hreinu (svolítið köldu) íslensku lofti og vakna um miðja nótt við sól og fuglasöng. Leyfa hrossagauk og spóa að syngja mann í svefn aftur. Það er svo sannarlega líka hægt að upplifa paradísina hér í bakgarðinum á Fróni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Elín Birna Skarphéðinsdóttir og Pálmi Viðar Snorrason
Elín Birna Skarphéðinsdóttir og Pálmi Viðar Snorrason
Krían og Krabbinn!

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...08-dsc_0094
  • ...08-dsc_0075
  • ...08-dsc_0058
  • ...08-dsc_0057
  • ...08-dsc_0050

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband