Bakhtaphur

21.2 2008 Þessi dagur var einstakur. Við fórum til Bakhtaphur sem er bær 32 km fyrir utan Katmandu. Við lögðum af stað í morgun með tveimur írskum konum sem við hittum við komuna hingað. Það er alltaf að verða erfiðara og erfiðara að fá leigubíla þar sem bensín er af skornum skammti þar sem deila stjórnar Nepal og Maoista lamar innflutning á bensíni frá Indlandi. Vegna þessa er ekki auðvelt að ferðast á milli hérna. Engin hætta á ferð en bílstjórar vilja bara ekki fara með fólk langar leiðir þar sem græða meira á mörgum stuttum ferðum. Við verðum því að fara vel yfir það hvort að við förum nokkuð í einhverjar langferðir.             En Bakhtaphur er frábær bær. Göturnar allar múrsteinslagðar. Engin umferð nema einstaka crazy mótorhjól. Fólkið þar svo vinarlegt og svo var veðrið alveg svakalega gott í dag, heitasti dagurinn hingað til. Ég eignaðist nokkra krútt vini enda klassískt að taka myndir af litlum krílum og sýna þeim svo myndirnar aftan á stafrænu myndavélinni. Þetta vekur alltaf mikla lukku. Við Pálmi stóðum á miðri götunni og vorum að kíkja á myndir sem ég hafði tekið stuttu áður. Í því kíkir eldri herra yfir öxlina á mér og vildi endilega kíkja líka sem hann að sjálfsögðu fékk. Ég endaði svo með því að smella einni flottri mynd og sýna honum.             Í kvöld fórum við svo út að borða eins og öll kvöld. Ég fékk með tíbetskan mat og Pálmi ítalskan. Máltíðin með öllu drykkjum og þjórfé kostaði 800 íslenskar krónur. Svo fengum við okkur sæti í garðinum okkar hérna við gistiheimilið og ég fékk mér nýjasta æðið mitt, engiferte. Sem sagt dásamlegur dagur.           

Sagarmatha

Hæbb við sáum Everest í dag eða Sagarmatha eins og það heitir á nepölsku. Við fórum sem sagt í útsýnisflug um Himalaya. Við fórum eldsnemma í morgun. Vöknuðum kl 5 í nótt og héldum í æsi-fleygiferð með eldgömlum leigubíl um myrkvaðar götur Katmandu, þar sem ekki er verið að splæsa í götulýsingu svona snemma að morgni. Við vöknuðum vel í aftursætinu. Bæði af æsingi við að fylgjast með því hvort einhver væri keyrð niður af þeim dökkklæddu verum sem voru komnar á fætur en einnig vegna gífurlegs kulda. Þegar við svo komum á flugvöllinn var ekki búið að opna þannig að takk fyrir urðum við að bíða fyrir utan í MIKLUM kulda. Heimamenn voru á leið út á land, en 85% þjóðarinnar býr í dreifðum byggðum landsins. Með í för voru heilu og hálfu stæðurnar af eggjum, gaseldavél, ein til tvær risatunnur fullar af einhverju góðgæti og svo náttúrulega ársbyrgðir af tiger-balm! Þegar var svo kallað út í flugvél upphófst alveg svakalegur æsingu með hrópum og köllum. Ein hjónin sem ég sá koma inn á svipuðum tíma og okkur, voru fyrst um sinn bara með sinn hefðbundna farangur, egg og svona og eitt barn. Síðan þegar kallað var út í vél hlupu þau af stað með öll eggin. Ekki leið þó að löngu að mamman kom aftur hrópandi...þá hafði hún gleymt barninu í æsingnum.

             Eftir stóðu náfölir, hljóðlátir ferðamenn sem skimuðu í kringum sig eins og álfar út úr hól. Enginn vissi neitt og allir héldu að útsýnisflugið hlyti að vera farið og skilið alla gláparana eftir á vellinum. Svo kom nú að því að við héldum út á völlinn um borð í relluna sem flutti okkur að þaki heimsins. Og þvílíkt þak. Að sjá sólina koma upp yfir þessum óhugnanlega fallegu fjöllum var stórkostlegt. Reyndar var svolítið mistur þannig að skilyrði til myndatöku voru ekki eins og best verður á kosið en upplifunin var engu að síður mögnuð. Svo fengum við eitt af öðru að fara fram í flugstjórnarklefann og líta dýrðina augum. Þegar ég fékk að líta í gegnum framrúðuna blasti það við mér...Evrest...tindur í fjarskanum! 

Krían í Nepal

Blogg 18.2 Þvílíkir dagar hérna í Nepal. Já draumalandið mitt hefur svo sannarlega ekki valdið mér vonbrigðum. Hér er mannlífið svo fjölbreytt og litskrúðugt. Hér er svo margt að sjá að við erum enn bara í Katmandu og erum alltaf að sjá eitthvað nýtt. Við fórum að skoða apahofið eins og Kalli frændi ráðlagði okkur og það var alveg magnað. Fullt af öpun sem sprönguðu um svæðið. Það sem var þó öllu magnaðra var að þegar við fórum svo inn í sjálft bænahúsið voru munkarnir að biðja. Þeir sem hafa séð myndina um Dalai Lama kannast við hvernig munkarnir kyrja, berja risastórar trommur og spila á einhvers konar flautur. Þetta var alveg ótrúlega flott og magnað.             Í dag fórum við svo að sjá Bodanath stærstu búdda stúpu í Nepal. Ég man þegar ég var uþb 15 ára sá ég myndir héðan og hugsaði með mér að þetta væri svo ótrúlega langt í burtu. Þegar maður væri kominn hingað kæmist maður vart lengra (þó að það sé nú kannski ekki alveg raunin). Það var því rosaleg upplifun að vera loksins komin hingað. Ganga hringinn í kringum þessa risabyggingu, meðal allra munkanna. Þarna í kring eru margir flóttamenn frá Tibet að selja varning sinn. Þannig að þarna fékk maður dálítinn nasaþef af tíbetskri menningu sem var nú ekki verra fyrir tíbet aðdáanda eins og mig. Já, þetta var alveg magnaður dagur eins og þeir sem undan eru gengnir. Ég er ástfangin af Nepal og ætla mér að koma hingað aftur...þá kannski í gönguferð...þó ekki upp á Evrest ég held áfram að dást að því fjalli bara úr fjarlægð.            Ég vil að lokum endilega minna á myndasíðuna mína. Linkurinn er hérna á heimasíðunni og svo má endilega skrifa í gestabókina eða kommenta...það er svo gott að heyra frá ykkur líka.

Pálmi bloggar

16.2.08Jæja þá erum við komin til Nepal! Það er eins og við séum loksins að byrja fríið okkar hérna þar sem Indland reyndist okkur nokkuð erfitt. Tilfinningin á Indlandi var eins og maður væri eiginlega ekki í fríi heldur í stöðugu heimaprófi í skólanum, manni fannst maður alltaf þurfa að vera á varðbergi gagnvart alls kyns ógnunum, allir voru að reyna að hafa af manni pening. Það var samt ekki hægt að verða reiður við þetta fólk vitandi og sjáandi við hverslags aðstæður það býr, það væri nær að lýsa þessu landi (það sem við sáum af því) sem algjörri orkusugu. Maður kom heim á hótel eftir daginn alveg uppgefinn þrátt fyrir að hafa afrekað lítið annað en að sitja á kaffihúsi og horfa út um gluggann eða að sitja í leigubíl með stöðugt áreiti frá útigangsfólki sem elti bílinn og reyndi hvað það gat til að fá nokkrar krónur... Mest langaði manni að gefa fólki allt sem maður á og hypja sig aftur heim og senda meira þaðan... en maður getur víst ekki bjargað heiminum í einni utanlandsferð...En allavega þá erum við komin til Nepal! Hérna sér maður að fátæktin er mikil en hún er einhvernvegin öðruvísi. Fólk brosir og gerir grín og virðist líða betur. Hérna getur maður gengið um nokkuð óáreittur og notið þess að vera í fríi áhyggjulaus um. Kannski er maður bara búinn að venjast fátæktinni í kringum mann??? Við gistum þessa dagana á Kathmandu Guest House sem er virklega þægilegur staður (Hérna gistu víst Bítlarnir á ferðalagi sínu um Indland og Nepal ). Gistiheimilið er staðsett alveg í miðbæ Kathmandu og hér iðar allt af lífi, fullt af veitingastöðum og litlum búllum sem selja vörur á 1/10 af því sem þær kosta heima á klakanum. Næstu daga ætlum við að skoða okkur um hérna í nágreninu og meðal annars að fara í flugferð um Nepal þar sem útsýnið verður líklega einhverjir smá hólar eins og Mount Everest!!! Ég vil benda ykkur á að aðalmyndasíðuna okkar er að finna á Flickr síðu Elínar ( tengill hérna hæra megin á síðunni neðarlega ) Þangað til næst over and out.

Nepal...já Nepal

15.2.08 Jæja komin til Nepal. Höfum tekið því nokkuð rólega í dag enda smá lumbra í mér í gær en þökk sé lyfjabyrgðum mínum er ég öll að koma til. Kann ekki alveg að fara vel með mig og finn aðeins fyrir hitavellu enda búin að vera á ferðinni í dag. Við fórum niður í bæ thamel og skoðuðum mannlífið sem er allt annað en í Indlandi. Fólkið er kátara, léttara og alveg hægt að grínast svolítið þrátt fyrir tungumálaörðugleika.             Við erum á ljómandi hóteli aðeins fyrir utan Katmandu. Hér slokknar annað slagið á öllum ljósum og hitaranum í herberginu þar sem rafmagnið er skammtað hér í landi. Við erum vopnuð vasaljósi og ullarfötum í kuldanum og því væsir ekkert um okkur. Við neyðumst nú samt til að kaupa okkur góðar úlpur hérna í einni af mörgum, mörgum útivistarbúðum sem selja rosalega flott útivistarföt á skid og ingenting. Ég sé pabba fyrir mér borga ferðina hingað á örfáum klukkutímum með kosta kaupum á útivistarfatnaði.             Hér er ýmislegt skammtað líka eldsneytið þar sem pólitískt ástand er ekki alveg jafnstöðugt og í borginni reykjavík...eða kannski álíka stöðugt. Ekkert sem hefur áhrif á okkur þó.            Hér er rosapartý í gangi alla daga í hótelgarðinum. Konur í hefðbundnum nepölskum búningum sem eru mjög fallegir í öllum regnbogans litum. Við höldum helst að það sé margra daga gifting í gangi.

            Alla vega líður okkur ljómandi. Hér er net afskaplega hægt þannig að hver færsla er afskaplega dýrmæt!

           

11.2 svolítið vitlaus tímaröð...þið fattið þetta

Blogg 11.2  Jæja loksins sváfum við út. Sváfum í næstum 13 tíma enda orðin langþreytt. Alltaf er okkur lofað internettengingu á herbergið okkar en aldrei er staðið við það frekar en annað hérna. Við komumst þó aðeins á internet stað þar sem netið var svo hægt að það tók uþb klukkustund að posta síðustu dagbókarfærslum og ég gat bara sett inn 5 myndir. Eins og það væri frábært að hafa net hérna á herberginu. Eignlega alveg nauðsynlegt þar sem við þyrftum að setja aðeins niður fyrir okkur ferðina til Nepal, en þangað förum við þann 14. 2. Við fengum góð ráð hjá Kalla frænda varðandi ferðina þangað.            Eftir að við drusluðum okkur á fætur fórum við niður á Connought place með TukTuk sem er skellinaðra með smá yfirbyggingu og sæti fyrir 2 afturí. Ferð með því farartæki er alltaf nokkur lífsreynsla, sérstaklega eins og umferðin er hérna. Pálmi er alveg heillaður af þessu fyrirbæri. Kæmi mér ekki á óvart ef drengurinn flytti eitt stykki heim og færi að ferja Íslendinga um bæinn á þessum fararskjóta.             Við röltum um, fórum á kaffihús, keyptum okkur voða fín púðaver og ætluðum í bíó en ótrúlegt en satt þá var engin ekta dans-bollywood-mynd þannig að við hættum við...alla vega í bili. Svo fórum við á veitingastað sem fjölskylda sem við spjölluðum við um daginn mælti með. Hann var í mjög hrörlegu húsi og þegar við komum fyrst að húsinu héldum við að búið væri að loka pleisinu. Við gengum þó upp á aðra hæð þar sem veitingastaðurinn átti að vera og fyrir innan glæsilega hurð á veggjum sem varla héldust uppi var þessi fíni veitingastaður. Snyrtilegur og inni var fjöldinn allur af fólki að gæða sér á fínum Indverskum mat.

fleiri góðir dagar...

Myndir á myndasíðunni! Ég verð að viðurkenna það að myndirnar mínar segja alls ekki sanna sögu um upplifun okkar af Indlandi. Hvers vegna að fá menningarsjokk af gullfallegum saríum og sögulegum byggingum? Við vissulega upplifum þetta Indland en hitt Indlandið er líka stór upplifun...en erfiðara að mynda bæði vegna þess að manni finnst maður vera komin of nálægt fólki þar sem maður myndar það í örbirgð sinni á götunni. Fólk vill líka ekki láta mynda sig við þessar aðstæður...skiljanlega. Þess vegna hef ég verið að reyna að taka myndir úr bílum á fleygiferð og í laumi með litlu myndavélinni minni þið vonandi sjáið þær myndir líka siðar. Í bili fáið þið að sjá fallega Indland. 12.2Við fórum í dag í skoðunarferð um Delí. Sáum Red Fort og Hindua hof sem og stærstu múslimsku mosku í Indlandi. Alls staðar var fólk að betla, hrópa og pissa...já pissa. Indverskir karlmenn víla það ekki fyrir sér að pissa alls staðar. Á meðal ökuferð í gegnum borgina sér maður svona 8 menn pissa á mismunandi stöðum og ég lofa ég er ekki að leita! Þannig að þegar maður gengur um þröngar götur eða við vegghorn verður maður að halda niðri í sér andanum...þakka bara fyrir að það er ekki meiri hiti hérnaJ 13.2

Við tókum einn rólegan dag til viðbótar og sváfum út. Röltum niður í bæ og reyndum að komast á netið þar sem að datt út hér á herberginu. Við pöntuðum hótel í nepal en þangað höldum við um hádegisbilið á morgun. Þetta er hótel aðeins út úr bænum kannski ágætt að hvíla sig á stórborgarmengun og hávaða? Park village hotel lofar góðu ...sjáum til!


dagbokarfaerslur undanfarinna daga

6.2.2008Við erum komin til Indlands...og nú höfum við upplifað hvernig er að fá alvöru menningarsjokk. Hér er fátæktin svo gríðarleg og svo áþreifanleg. Hér lifir fólk á götunni. Það sefur, borðar, betlar og deyr í rennusteininum.             Þetta hafa verið mjög svo súrrealískir dagar. Lítið um svefn enda flugið okkar á næturvaktaplani. Við flugum með Virgin atlantic frá London í nótt en lítið fór fyrir svefni. Fyrst vegna þess að það var bara einfaldlega of mikið að gera við að fikta í öllum tökkum, velja kvikmyndir fyrir flugið, tónlist, skoða gjafapokann og svo framvegis. Seinna voru það dónalegir farþegar og sætin sem héldu fyrir okkur vöku. Þegar við komum svo út af flugvellinum fengum við leigubíl sem átti að skutla okkur á hótelið var það uppbókað (jafnvel þó að við værum búin bóka og borga). Við komumst þó á endanum á ágætis hótel. Það var þó ferðin í leigubílnum sem varð valdur af  menningarsjokkinu. Það er í raun ekki hægt að lýsa því sem fyrir augu bar nema bara sem ótrúlegri fátækt og örbirgð. Betlarar bönkuðu á rúðurnar þar sem við keyrðum framhjá og löngunin til að taka litlu, grútskítugu börnin í fangið varð hrikalega sterk. Á morgun ætlum við svo að reyna að skipuleggja frekar dvölina okkar hérna á Indlandi. Við reynum að vera dugleg að blogga en það er ekki alveg hægt að stóla á almennilegt net allsstaðar. Gerum okkar besta.

Namaste!

Blogg 8.2.08 Komin til Agra og menningarsjokkið ekkert að jafna sig. Gerir það líklega ekki fyrr en við hypjum okkur héðan. Get ekki sagt að við Pálmi höfum fallið fyrir Indlandi. Við höfum nánast alls staðar verið snuðuð um það sem okkur hefur verið lofað um og það tekur nokkuð á taugarnar að treysta ekki nokkrum einasta manni. Við erum farin að finna vel fyrir 3 daga svefnleysi, hungri og taugatitringi. Pálmi er komin með hita en vonandi er það ekkert nema álagið að segja til sín.             Við fórum í dag með bílstjóra til Agra. Þetta var ákaflega hávaðasöm ferð þar sem allir flauta allan tímann og umferðin er ekki fyrir hjartveika!              Við förum á morgun að skoða hið fræga Taj Mahal og finnst okkur báðum kominn tími til að sjá eitthvað fallegt og vonum að það gangi eftir á morgun. Við verðum líklega aðra nótt hér og reynum svo að fara til Delí aftur. Við ætlum að reyna að stytta ferðina okkar hér á Indlandi. Spurning hvað tekur við okkur í Nepal?Blogg 10.2.08 Jæja loksins er menningarsjokkið á undanhaldi og við búin að átta okkur á hlutunum hér í Indlandi...alla vega þeim sem hægt er að átta sig á! Til dæmis á maður aldrei, aldrei að taka fyrsta tilboði um neitt. Ekki fyrsta hótelherberginu sem þér er boðið á hótelinu, ekki fyrsta hótelinu ef því er að skipta. Við höfum gerst kröfuharðari og frekari með hverju svindlinu og fengið okkar í gegn með frekjuna eina að vopni. Maður svara bara í sömu mynt.            Við erum sem sagt komin til Delí aftur eftir að blúsinn tók yfir og við lögðum hreinlega ekki í mikið ferðalag í þessu landi. Það verður að bíða betri tíma enda nóg að skoða hér í þessari 15 milljón manna borg.  AgraFerðin okkar til Agra var þó mjög vel heppnuð fyrir utan hótel vesen. Okkur var lofað fínu hóteli í Agra ekki langt frá Taj Mahal. Þegar við svo komum þangað beið okkar mjög svo myglað hótelherbergi sem einhver hafði ætlað að redda á síðustu stundu með að spreyja vel af ilmúða yfir...eins gott og það er nú. Í lobbýinu stóðu hvorki fleiri né færri en 4 sveittir hlýrabola, ístrukallar og umhverfis hótelið voru bara betlarar og geitur.  Við sem ekki höfðum sofið almennilega í 3 sólarhringa, ekki borðað í svipað langan tíma og búið að snuða okkur þegar um 2 nætur, misstum okkur í reiðinni. Ég verð að segja að ég sá hreinlega rautt! Við stöppuðum niður fæti og kröfðumst betra hótels. Bílstjórinn okkar (sem ég var þegar búinn að skamma fyrir að keyra alltof hratt, bílhræðsla lagast lítið í indveskri umferð) varð mjög skömmustulegur og hundskaðist með okkur á ágætis hótel. Eftir smá svefn og át á McDonalds rann okkur reiðin og við fórum að sjá húmorinn í þessu öllu. Við ákváðum þó að við yrðum að láta skynsemina ráða og fara aðeins hægar af stað, en við höfðum fram að þessu ekki verið á einu hóteli lengur en 1 nótt og varla sofið þar sem við vorum mjög dægurvillt. Við vorum því 2 nætur í Agra.              Taj MahalÞann 9. fórum við að sjá Taj Mahal og þvílík upplifun. Að ganga inn um hliðið inn að byggingunni og sjá hana í öllu sínu veldi. Mér fannst hún miklu stærri heldur en ég hafði ímyndað mér. Við vorum þarna í sól og köldum himalaya vindi, veðri sem svipar mikið til fallegra vordaga á Skerinu. Endurkastið frá hvítum marmaranum er svo mikið að ég fékk ofbirtu í augun. Margir Indverjar fara að Taj um helgar og konurnar klæða sig þá upp í fallega sarí og kóróna hreinlega upplifunina.              Agra Fort Mjög flottur kastali sem byggður var að Akbar keisara árið 1565. Frábært útsýni er þaðan yfir að Taj Mahal. Við höfðum beðið um að vera á sama hótel herbergi seinni nóttina okkar í Agra. Það var þó eitthvert vandamál þar sem hótelið var að sögn (sem sjaldnast er að marka hér á landi) uppbókað. Travelagentinn okkar ráðlagi okkur því að fara bara af herberginu í dagsferðir með herbergislykill í vasanum og láta ekki sjá okkur á hótelinu fyrr en um 21. Við fórum eftir þessum tilmælum og héldum herberginu í gíslingu þann daginn ekki vitandi hvar við myndum gista ef okkur yrði hent út!! Við skoðuðum Agra allan daginn –Taj Mahal, Agra Fort, fengum okkur góðan indverskan mat og laumuðumst svo upp á herbergi. Það sagði enginn neitt og við sváfum rótt í herberginu okkar síðustu nótt.  Núna seinni partinn eftir að við komum aftur hingað til Delí lentum við aftur í hótelherbergja rugli. Sami pakkinn mygluherbergi og sveittir lobby- karlar, en vorum sneggri til að skrúfa upp frekjuna og lúllum núna á fínu hóteli, Karat 87 í Karol Bangh hverfi sem er heimili líflegs markaðar. Við röltum markaðinn fram og aftur, fengum okkur að borða, spjölluðum við huggulega indverska fjölskyldu og nú að blogga og slaka á þessu fína herbergi. Já, hlutirnir hafa svo sannarlega snúist til hins betra. Kveðja Elín Birna   

 


Indland

Jaeja komin til Indlands. Bunir ad vera erfidir dagar undanfarid en allt i skarri att nuna. Getum sagt ad vid erum ekki fallin fyrir thessu landi. Forum ad sja taj mahal i dag og thad var alveg mognud tilfinning ad sja thessa rosalegu byggingu loksins med eigin augum. Loksins saum vid eitthvad fallegt en hingad til hefur verid nkkur skortur a tvi. Her er fataektin thvilik og lifsbarattan svo hord ad vestraenum velmegunar alfum eins og okkur lidur hreint likamlega illa vid ad horfa upp a thessa orbirgd. Vid erum a leid fra Agra til Deli aftur a morgun og komumst ta vonandi a netid med okkar t0lvu og ta set 'eg inn dagbikarfaerslur og vonandi myndir lika...tannig ad haldid afram ad tjekka a okkur.

kostnaðurinn

Það gera sér allir grein fyrir því að það er ekki ókeypis að fara í svona ferð, en kostnaður við lyf og bólusetningar er ógeðslega mikill. Ég var að koma úr apótekinu þar sem ég eyddi 20.000 kr á einu bretti í verkja-, malaríu- og ýmis skemmtilyf. Bólusetningarnar frá Tælandsferðinni duga enn sem betur fer þannig að sá kostnaður dreifist á lengri tíma. Bólusetningar og lyf eru í heild líklega að kosta okkur um 70 þús krónur...fyrir okkur tvö NB! En þetta er samt góð trygging ekki vill maður fá eitthvað af þessum hrikalegu sjúkdómum sem eru sem betur fer ekki lengur landlægir hér á Skerinu.

Talandi um tryggingar er eins gott að hafa þær á hreinu. Við fáum tryggingar í gegnum okkar kredit-kort í 60 daga. Þar sem við erum í rúma 90 daga þurfum við að kaupa auka tryggingu fyrir rúma 30 daga og það er líka kostnaður... þó bara smáaurar miðað við ýmislegt annað í kringum þessa ferð.

Annar felukostnaður er varðandi vegabréfsáritanir. Fyrir okkur tvö munu 3 vegabréfsáritanir kosta um 26 þús. En þá er eftir að borga vegabréfsáritanir í löndunum sjálfum en þær er stundum hægt að fá á flugvöllum landanna.  

Jæja, þetta er allt peningur sem er leiðinlegt að leggja af hendi því manni finnst varan sem maður fær eitthvað svo léttvæg og leiðinleg, þó í raun sé hún svo mikilvæg og ómissandi. Mér allavega líður mun betur útstunginni af bólusetningum og með kíló í yfirvigt af lyfjum heldur en ekki!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Elín Birna Skarphéðinsdóttir og Pálmi Viðar Snorrason
Elín Birna Skarphéðinsdóttir og Pálmi Viðar Snorrason
Krían og Krabbinn!

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...08-dsc_0094
  • ...08-dsc_0075
  • ...08-dsc_0058
  • ...08-dsc_0057
  • ...08-dsc_0050

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband