Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Mögnuð ganga

Ég var að koma heim eftir þessa mögnuðu göngu. Fjöldi fólks gekk í dásamlegu veðri  hér í Reykjavíkinni. Þegar blöðrunum, rauðum fyrir þá sem slösuðust alvarlega í bílslysum árið 2006 og svörtum fyrir þá sem létu lífið, blöskraði mér fjöldi þeirra rauðu. Þær svörtu tákna að sjálfsögðu gríðarlegan missi og sorg en þær rauðu einnig en þær gleymast svo oft í umfjöllun um þessi hrikalegu slys.

Munum bara að minni hraði - Minni skaði! Þegar einhver ekur á rúmlega löglegum hraða er sá hinn sami ekki einungis að taka ákvörðun um að koma sjálfum sér í hættu heldur hinum á veginum einnig. Það hefur enginn maður þann rétt að taka slíka ákvörðun!

Frábært framtak!


mbl.is Mikil þátttaka í göngu gegn umferðarslysum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskrifuð

Við erum þá komin heim á skerið góða. Þegar við lentum á KEF var venju samkvæmt 10 stiga hiti og smá súld. Mér finnst þessi veðurlýsing alltaf taka á móti mér þegar ég lendi sama hvaða tíma árs ég er að þvælast til útlanda. Síðan hefur nú veðrið skánað heilan helling og er ljómandi þessa stundina. Það er sem sagt vika síðan að ég útskrifaðist og byrjaði svo að vinna á mánudaginn síðasta með nýjan titil upp á arminn. Nema endingin var horfin af nafn spjaldinu og í staðinn komin endingin -fræðingur með öllum sínum þunga og væntinga um svör við öllu. Mér hefur gengið ljómandi vel að svara þeim sem ég hef fengið hingað til og greinilegt að eitthvað hefur tollað í toppstykkinu eftir þessi 4 ár í háskólanum.

Við Pálmi fórum í fyrstu útileguna á föstudaginn og gistum á Þingvöllum. Sem var bara dásamlegt að sofa í hreinu (svolítið köldu) íslensku lofti og vakna um miðja nótt við sól og fuglasöng. Leyfa hrossagauk og spóa að syngja mann í svefn aftur. Það er svo sannarlega líka hægt að upplifa paradísina hér í bakgarðinum á Fróni.


Til Bangkok í dag

Þá er dvölinni á paradísar eyjunni Koh Samui að ljúka. í dag höldum við aftur til Bangkok þar sem við hófum ferðina. Magnað að þessum 3 vikum ljúki senn og við verðum komin á klakann á föstudaginn. Þá tekur nóg við, útskrift og ég að byrja í nýrri vinnu!

Annars er það héðan að frétta að þegar við fórum í morgun mat áðan þá urðum við að bíða meðan var verið að grisja garðinn en það fólst meðal annars í því að banvænar kókoshnetur flugum allan garð. Það var bara undir hverjum og einum að hlaupa undan þeim þar sem varúðarráðstafanir eru ekki eitthvað sem Tælendingum er tamt.

Jæja núna reynum við að koma skikk á þessa sprengju sem er hérna inni og REYNUM að pakka niður og gera klárt fyrir flugið á eftir.

 

 


eyjaferð

Jæja enn erum við í paradís. Sjórinn hér á Ko Samui iðar af lífi eins og annars staðar hvert sem litið er eru torkennileg dýr sem maður hefur bara séð á discovery. Froskar bíða manns á kvöldin á pallinum fyrir framan herbergið. Eðlur gera sitt besta til að fanga moskító og risasniglar lulla rólega yfir risa plönturnar sem eru hérna í garðinum. Flestar þeirra stofuplöntur hjá allra hörðustu ræktendunum þar sem þær þurfa mikinn raka og hita...eins og er hér.  Í gær fórum við í siglingu um eyjarnar hér í nágrenninu. Eins og svo margt annað hérna er sagan ekki sögð alveg öll þegar maður bókar svona ferðir hérna. við áttum að fá að vera ein á bátnum okkar hópur enda vorum við 16 í allt. Það kom svo á daginn að við vorum öll á sama bátnum ásamt 10 örðum og trúið mér þessi bátur var ekki gerður fyrir svona marga! Guidinn okkar líka svona líka hress að strax hefði verið gert lyfjapróf á honum á slysó. Þetta var þrátt fyrir ákaflega sérstakar aðstæður einstök upplifun eins og annað hérna. Við snorkluðum við Koh Tao og Koh Nang Youang og tærari sjó hef ég aldrei séð. Talandi um discovery þá hef ég aldrei séð svona fiska eins og slógust í för með okkur þarna. Meðal annars sá ég sverðfisk, varafiska og trúðafiska (svona eins og Nemo). Kórallar og sæbjúgu bærðust í svo til lygnum sjónum. Þetta var ótrúlegt og óraunverulegt eins og eru að verða einkunnarorð þessarar ferðar! Hér er hver dagur þvílík upplifun!  

koh samui

erum nu a koh samui. her er solin sterka a daginn og svo er sturta a allt lidid a kvoldin. her rigndi tvilikt i gaer. vid palmi hlupum heim af kabaret showi og tegar vid komum inn var ekki trurr tradur a okkur. a morgun fer hopurinn i siglingu milli 2 eyja, snorklar og nytur lifsins eins og adur.

Thailand

jæja hvar á maður að byrja að lýsa svona ævintýri sem þessi ferð er. kannski bara á byrjuninni. Í Bankok fórum við Pálmi í mall þar sem tæknivörur eru seldar. Tveir kynnar töluðu stanslaust í míkrafóna í miðri búðinni og kynntu með miklum látum hverja einustu vöru sem var seld þarna inni. Gríðarlegur fjöldi fólks var þarna inni og allir að selja eitthvað virtist vera. Þarna fékk ég útskriftargjöfina mína frá Pálma forláta Nikon D80 myndavél og hef ég beitt henni óspart í síðustu dögum. Hótelið í Bangkok gaf tónin fyrir hótelin þar á eftir. Mjög flott þar sem ekki má gera handtak sjálfur og snúist er í kringum mann. Reyndar er það víðast hver hér á Tælandi fólk vill allt fyrir mann gera og auðmýktin og þjónustulundin ætlar stundum að keyra um þverbak.            Eftir Bangkok fórum við til Mae Hon Son á norður Tælandi. þegar við lentum þar á litlu rellunni fannst mér ég ver komin inn í miðjan þátt af Lost. gróðri vaxnar hlíðar hvergi sást neitt nema gróður og svo náttúrulega flugvélin og völlurinn. Þarna gistum við fyrstu nóttina á fínu hóteli...en næstu nótt, tja hvað getur maður sagt....            við fórum sem sagt í safarí. Fyrst á fílsbak og svo á bambusfleka niður fljót með örugglega 90 ára gamlan ræðara. Eftir það var borðað á veitingastað (tælenskur matur eins og alla daga nema 2 hingað til) og svo fórum við og skoðuðum þorp Karen Long neck fólksins. Þessi ættbálkur eru í raun  flóttamenn frá Burma en hafa verið Tælands megin við  landamærin og hafa þann starfa einan að viðhalda hefðum sínum og menningu fyrir ferðamenn. Samt sem áður koma ekki svo margir ferðamenn þangað. Þetta var mjög óraunverulegur dagur. Óraunveruleika tilfinningin jókst ekki þegar við komum svo á gisti stað næturinnar. Bambuskofar líkt og þeir sem heimamenn í þessari sveit og long neck fólkið býr í. Öll met voru slegin í stórum kóngulóm, kakkalökkum og maurum og hræðslan við moskító náði nýjum hæðum í hópnum! Fólk beitti ýmsum ráðum við að gera sér vistina bærilegri. sumir hættu að drekka allan vökva til að þurfa ekki að fara á klósettið sem var mjög sérstakt...ef maður vill orða það fallega! aðrir beittu róandi lyfjum á fljotandi formi og enn aðrir vöfðu sér inni í lak og beittu silki plástri til að hindra inngöngu þess óæskilega en jafnframt útgöngu þessa þar sem sú manneskja fékk stærsta bit ferðarinnar.            við lifðum nú öll þessa nótt af og héldum af stað (mjög skítug þar sem engin sturta var þarna fyrir utan tunnu fulla af lirfuríku rigningavatni, en enginn þáði það bað).fórum og skoðuðum kínverkst þorp þar sem íbúarnir rækta gæða te sem er handtínt af runnunum, þurrkað og malað allt á staðnum. svo fórum við að skoða foss í miðjum frumskóginum og skítugur líðurinn demdi sér út í dásamlegt vatnið og þvílík sæla!             Þessi ferð er ein af þeim allra mögnuðust sem ég hef upplifað um ævina og vona bara að sem flestir nái að upplifa eitthvað þessu líkt einhvern tímann! Mikið á maður gott að geta leyft sér svona ævintýri.            Síðan lá leiðin til Chiang mai þar sem þetta er skrifað. í gær var mikil hátíð hjá búddatrúar fólki og fórum við í búdda hofið Wat Do Sutep. Þar var fjöldi manns sem báðu með blóm og reykelsi í höndunum. Kveiktu á kertum og báðu um heilsu og heppni. við fengum blessun frá munknum á staðnum sem kirjaði yfir okkur og gaf okkur svo að lokaum bómullarband, mér á vinstri hönd og pálma á þá hægri. Þessi bönd vekja áhuga heimamanna og spyrja þeir hvar við fengum þessar gersemar.            Í gær upplifðum við svo alvöru rigningu! eldingar, þrumur og sturtu úrhelli sem bleytti mann allan á 5 sek. Göturnar breyttust í árfarvegi á 20 mín og ljósin dofnuðu á hótelinu. Þetta var bara meiri háttar upplifun og sjaldan sem ég hef orðið jafn spennt yfir jafn hversdagslegu fyrirbæri og rigningu. á morgun förum við til Ko Samui og verðum þar í 8 daga. síðan síðustu 2 dagana í Bangkok. Þetta hefur liði alveg svakalega hratt þrátt fyrir stífa dagskrá nánast alla daga. ég er alveg heilluð af Tælandi og hlakka til að sjá hvernig eyjalífið er hérna. vona að ég geti sagt ykkur eitthvað frá því ef ég kemst á net einhver staðar. Þangað til síðarShawa tie Kaa (veit ekkert hvernig þetta er skrifað)

Höfundur

Elín Birna Skarphéðinsdóttir og Pálmi Viðar Snorrason
Elín Birna Skarphéðinsdóttir og Pálmi Viðar Snorrason
Krían og Krabbinn!

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...08-dsc_0094
  • ...08-dsc_0075
  • ...08-dsc_0058
  • ...08-dsc_0057
  • ...08-dsc_0050

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband