6.2.2008Við erum komin til Indlands...og nú höfum við upplifað hvernig er að fá alvöru menningarsjokk. Hér er fátæktin svo gríðarleg og svo áþreifanleg. Hér lifir fólk á götunni. Það sefur, borðar, betlar og deyr í rennusteininum. Þetta hafa verið mjög svo súrrealískir dagar. Lítið um svefn enda flugið okkar á næturvaktaplani. Við flugum með Virgin atlantic frá London í nótt en lítið fór fyrir svefni. Fyrst vegna þess að það var bara einfaldlega of mikið að gera við að fikta í öllum tökkum, velja kvikmyndir fyrir flugið, tónlist, skoða gjafapokann og svo framvegis. Seinna voru það dónalegir farþegar og sætin sem héldu fyrir okkur vöku. Þegar við komum svo út af flugvellinum fengum við leigubíl sem átti að skutla okkur á hótelið var það uppbókað (jafnvel þó að við værum búin bóka og borga). Við komumst þó á endanum á ágætis hótel. Það var þó ferðin í leigubílnum sem varð valdur af menningarsjokkinu. Það er í raun ekki hægt að lýsa því sem fyrir augu bar nema bara sem ótrúlegri fátækt og örbirgð. Betlarar bönkuðu á rúðurnar þar sem við keyrðum framhjá og löngunin til að taka litlu, grútskítugu börnin í fangið varð hrikalega sterk. Á morgun ætlum við svo að reyna að skipuleggja frekar dvölina okkar hérna á Indlandi. Við reynum að vera dugleg að blogga en það er ekki alveg hægt að stóla á almennilegt net allsstaðar. Gerum okkar besta.
Namaste!
Blogg 8.2.08 Komin til Agra og menningarsjokkið ekkert að jafna sig. Gerir það líklega ekki fyrr en við hypjum okkur héðan. Get ekki sagt að við Pálmi höfum fallið fyrir Indlandi. Við höfum nánast alls staðar verið snuðuð um það sem okkur hefur verið lofað um og það tekur nokkuð á taugarnar að treysta ekki nokkrum einasta manni. Við erum farin að finna vel fyrir 3 daga svefnleysi, hungri og taugatitringi. Pálmi er komin með hita en vonandi er það ekkert nema álagið að segja til sín. Við fórum í dag með bílstjóra til Agra. Þetta var ákaflega hávaðasöm ferð þar sem allir flauta allan tímann og umferðin er ekki fyrir hjartveika! Við förum á morgun að skoða hið fræga Taj Mahal og finnst okkur báðum kominn tími til að sjá eitthvað fallegt og vonum að það gangi eftir á morgun. Við verðum líklega aðra nótt hér og reynum svo að fara til Delí aftur. Við ætlum að reyna að stytta ferðina okkar hér á Indlandi. Spurning hvað tekur við okkur í Nepal?Blogg 10.2.08 Jæja loksins er menningarsjokkið á undanhaldi og við búin að átta okkur á hlutunum hér í Indlandi...alla vega þeim sem hægt er að átta sig á! Til dæmis á maður aldrei, aldrei að taka fyrsta tilboði um neitt. Ekki fyrsta hótelherberginu sem þér er boðið á hótelinu, ekki fyrsta hótelinu ef því er að skipta. Við höfum gerst kröfuharðari og frekari með hverju svindlinu og fengið okkar í gegn með frekjuna eina að vopni. Maður svara bara í sömu mynt. Við erum sem sagt komin til Delí aftur eftir að blúsinn tók yfir og við lögðum hreinlega ekki í mikið ferðalag í þessu landi. Það verður að bíða betri tíma enda nóg að skoða hér í þessari 15 milljón manna borg. AgraFerðin okkar til Agra var þó mjög vel heppnuð fyrir utan hótel vesen. Okkur var lofað fínu hóteli í Agra ekki langt frá Taj Mahal. Þegar við svo komum þangað beið okkar mjög svo myglað hótelherbergi sem einhver hafði ætlað að redda á síðustu stundu með að spreyja vel af ilmúða yfir...eins gott og það er nú. Í lobbýinu stóðu hvorki fleiri né færri en 4 sveittir hlýrabola, ístrukallar og umhverfis hótelið voru bara betlarar og geitur. Við sem ekki höfðum sofið almennilega í 3 sólarhringa, ekki borðað í svipað langan tíma og búið að snuða okkur þegar um 2 nætur, misstum okkur í reiðinni. Ég verð að segja að ég sá hreinlega rautt! Við stöppuðum niður fæti og kröfðumst betra hótels. Bílstjórinn okkar (sem ég var þegar búinn að skamma fyrir að keyra alltof hratt, bílhræðsla lagast lítið í indveskri umferð) varð mjög skömmustulegur og hundskaðist með okkur á ágætis hótel. Eftir smá svefn og át á McDonalds rann okkur reiðin og við fórum að sjá húmorinn í þessu öllu. Við ákváðum þó að við yrðum að láta skynsemina ráða og fara aðeins hægar af stað, en við höfðum fram að þessu ekki verið á einu hóteli lengur en 1 nótt og varla sofið þar sem við vorum mjög dægurvillt. Við vorum því 2 nætur í Agra. Taj MahalÞann 9. fórum við að sjá Taj Mahal og þvílík upplifun. Að ganga inn um hliðið inn að byggingunni og sjá hana í öllu sínu veldi. Mér fannst hún miklu stærri heldur en ég hafði ímyndað mér. Við vorum þarna í sól og köldum himalaya vindi, veðri sem svipar mikið til fallegra vordaga á Skerinu. Endurkastið frá hvítum marmaranum er svo mikið að ég fékk ofbirtu í augun. Margir Indverjar fara að Taj um helgar og konurnar klæða sig þá upp í fallega sarí og kóróna hreinlega upplifunina. Agra Fort Mjög flottur kastali sem byggður var að Akbar keisara árið 1565. Frábært útsýni er þaðan yfir að Taj Mahal. Við höfðum beðið um að vera á sama hótel herbergi seinni nóttina okkar í Agra. Það var þó eitthvert vandamál þar sem hótelið var að sögn (sem sjaldnast er að marka hér á landi) uppbókað. Travelagentinn okkar ráðlagi okkur því að fara bara af herberginu í dagsferðir með herbergislykill í vasanum og láta ekki sjá okkur á hótelinu fyrr en um 21. Við fórum eftir þessum tilmælum og héldum herberginu í gíslingu þann daginn ekki vitandi hvar við myndum gista ef okkur yrði hent út!! Við skoðuðum Agra allan daginn Taj Mahal, Agra Fort, fengum okkur góðan indverskan mat og laumuðumst svo upp á herbergi. Það sagði enginn neitt og við sváfum rótt í herberginu okkar síðustu nótt. Núna seinni partinn eftir að við komum aftur hingað til Delí lentum við aftur í hótelherbergja rugli. Sami pakkinn mygluherbergi og sveittir lobby- karlar, en vorum sneggri til að skrúfa upp frekjuna og lúllum núna á fínu hóteli, Karat 87 í Karol Bangh hverfi sem er heimili líflegs markaðar. Við röltum markaðinn fram og aftur, fengum okkur að borða, spjölluðum við huggulega indverska fjölskyldu og nú að blogga og slaka á þessu fína herbergi. Já, hlutirnir hafa svo sannarlega snúist til hins betra. Kveðja Elín Birna
Eldri færslur
Tenglar
Vinir, vandamenn og börn
- Rakel Ösp
- Henry Sebastian
- Kolbrún Georgs
- Stefanía og Alexsander (þarf lykilorð)
- Halldór Nökkvi (þarf lykilorð)
- Sunna Dís (þarf lykilorð)
- Svava og Einsi
hin ýmsu gistiheimili
upplýsingar um löndin og borgir sem við förum til
- Los Angeles
- Los Angeles
- Lombok í Indonesíu
- Singapor
- Kína
- Vietnam
- indland
- Nepal
- lonley planet alveg ómissandi í Afríku
- Uganda
- Kenía
- Tanzania
Athugasemdir
Gaman að "heyra" frá ykkur og vonandi eru hrakfarirnar að baki :) Bíð spennt eftir næstu færslu
Rakel Ösp (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 11:56
Heil og sæl
Vonandi er Pálmi að hressast. Þvílík lýsing á samskiptum ykkar við Indverjana. Í senn bráðfyndin en hefur örugglega ekki verið það á meðan á svikunum stóð. Þarna er lífbaráttan hörð og þessi framkoma hluti af þeirra menningu. En að svara í sömu mynt er hárrétt hjá ykkur. Ég sendi upplýsingar frá Kalla um Nepal. Látið mig vita hvort sendingin hafi borist ykkur. Kær kveðja úr Víðihlíð
Skarphéðinn P. Óskarsson (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 13:57
Heil og sæl Pálmi og Elín
Þetta er engin smá upplifun greinilega. Það er erfitt að horfa upp á mikla fátækt en meginpunkturinn er þó að maður sjálfur getur afar lítið gert sem máli skiptir. Útskrift gekk vel um helgina en ykkar var sárt saknað. Ég reyndi þó að brosa í gegnum tárin:) Þökkum kærlega fyrir afar fallega gjöf. Hlakka til að lesa næstu færslu og fá að sjá fleirri myndir
Ögmundur (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 16:37
Þvílíkt ótrúlegar lýsingar!
Kveðja, Svava
P.S. Gömlu töffararnir á McDonalds eru flottastir
Svava Björk (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 19:42
Hæ hæ,
Þetta hefur greinilega verið ansi erfitt í byrjun en það er gaman að heyra viðsnúninginn síðustu daga og vonandi er Pálmi búinn að jafna sig. Ég er viss um að eftir hrakfarirnar í byrjun, liggi leiðin aðeins upp á við og í Skeifunni fylgjumst við spennt með framhaldinu. ps. flottar myndir
Jón G. Ólafsson (IP-tala skráð) 13.2.2008 kl. 11:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.